Málsmeðferð

Hægt er að kæra ákvörðun stjórnvalds til úrskurðarnefndar velferðarmála, sé til þess heimild í lögum. Kærendur leggja fram kæru til nefndarinnar með því að fylla út kærueyðublað sem bæði er hægt að senda nefndinni rafrænt eða prenta út og senda með bréfpósti. Kæra verður að vera skrifleg og undirrituð af kæranda/kærendum. Undirritun er ekki nauðsynleg þegar kæra er send rafrænt.

Nauðsynlegt er að senda umboð með kæru þegar kærandi veitir öðrum umboð til að fara með mál fyrir sína hönd. Þegar kært er til úrskurðarnefndarinnar er mikilvægt að greina frá hvaða ákvörðun verið er að kæra. Nauðsynlegt er að skrifleg ákvörðun stjórnvalds, sem aðilar eru ósáttir með og vilja kæra, fylgi með kærunni.

Almennar reglur um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni er að finna í II. kafla laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, meðal annars um kærufrest, upplýsingaskyldu og gagnaöflun, málsmeðferð, málsmeðferðartíma, réttaráhrif og aðfararhæfi. Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Nefndin getur ákveðið að kalla málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund. Úrskurðarnefndin skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni máls áður en nefndin kveður upp úrskurð sinn, enda telji nefndin að afstaða hans og rök fyrir henni liggi ekki fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Þegar kæra hefur borist til úrskurðarnefndarinnar óskar nefndin eftir greinargerð vegna málsins frá þeirri stofnun sem tók hina kærðu ákvörðun. Stofnuninni er almennt veittur hálfs mánaða frestur til að skila inn greinargerð. Greinargerð stofnunarinnar er síðan send kæranda til kynningar og getur kærandi gert athugasemdir ef þurfa þykir.

Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Hægt er að fá frekari upplýsingar um það hvernig á að kæra, svo og hvar mál er statt í kæruferlinu, með því að hafa samband við skrifstofu úrskurðarnefnarinnar í síma 551-8200.