Forsaga úrskurðarnefndar velferðarmála

Úrskurðarnefnd velferðarmála tók til starfa 1. janúar 2016. Nefndinni var komið á fót með lögum nr. 85/2015.

Við stofnun nefndarinnar voru eftirtaldar úrskurðar- og kærunefndir lagðar niður og sameinaðar í úrskurðarnefnd velferðarmála: Kærunefnd barnaverndarmála, kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála og úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 85/2015 kemur fram að tilgangur breytinganna hafi verið að auka hagkvæmni og bæta vinnubrögð. Einnig er rakið að markmiðið sé að tryggja að unnt verði að uppfylla ákvæði laga um endurskoðun stjórnvaldsákvarðana, jafnt hvað varðar sjálfstæði, málshraða og vandaða málsmeðferð.